Kristrún Sigurrós Malmquist – ein reynslumesta ljósmóðir Íslands
Á dögunum barst Líf veglegur styrkur til tækjakaupa en styrkurinn var veittur til þess að heiðra Kristrúnu Sigurrós Malmquist eina reynslumestu ljósmóður Íslands sem fagnar 90 ára afmæli á næsta ári.
Kristrún átti farsælan starfsferil sem ljósmóðir í 45 ár á árunum 1957-2001 en Fæðingardeild Landspítalans var stofnuð árið 1949, aðeins 8 árum áður en Kristrún hóf störf sem ljósmóðir. Lengst af starfaði Kristrún á göngudeild Kvennadeildar þar sem mæðraskoðunum var sinnt, en þar starfaði hún frá því deildin var stofnuð árið 1974 og allt þar til hún lét af störfum vegna aldurs árið 2001.
Kristrún var þekkt fyrir að vera einstaklega nærgætin og vinaleg og er hennar minnst fyrir að hafa deilt reynslu sinni með bæði ljósmæðrum og læknum. Eins og kom fram í kveðjuræðu deildarstjóra göngudeildarinnar þegar Kristrún lét af störfum: „Við erum margar ljósmæðurnar sem höfum fengið frábæra kennslu og leiðbeiningar hjá þér og einnig margir læknarnir sem hafa notið kennslu þinnar. Ég leyfi mér að fullyrða að það eru örugglega óteljandi barnshafandi konurnar og verðandi feður sem hafa farið glaðari í bragði gegnum meðgöngurnar sínar og fæðingar, þín vegna. Ein kona hafði sagt um daginn þegar hún frétti af starfslokum þínum „hvernig fara verðandi mæður að?“.“
Margt breyttist í aðbúnaði og starfsháttum á Kvennadeildinni á hennar starfsferli en um það leyti sem Kristrún hóf störf var miðað við að sængurkonur væru að jafnaði rúmfastar fram á 5. dag, fóru heim á 8. degi en á 12. degi eftir keisaraskurð. Mæður fengu á þessum tíma börnin inn til sín eingöngu á brjóstagjafatíma og „pabbatímar“ voru aðeins 1-2 klst. á sólarhring.
Styrkurinn sem nú var veittur var m.a. nýttur í svokölluð Rebozo-sjöl sem ætlað er að auka líkur á náttúrulegum fæðingum. Ef kollur er að ganga skakkt niður í grind þá er hægt að nota sjal af þessu tagi til að hrista kúluna og reyna að rétta kollinn af.
Þá hefur líka margt breyst varðandi fjáröflun tækjabúnaðar en fljótlega eftir að Kristrúnn hóf störf tók hún
þátt í að ganga í hús í Reykjavík til þess að óska eftir styrkjum til þess að kaupa nýjan hitakassa fyrir nýbura. Kristrúnu var minnistætt að á einu stað var henni boðið inn í kaffi hjá konu sem sjálf hafði gengið í hús þegar fyrsti Landspítalinn var byggður og safnað fé til framkvæmdanna. Þá voru viðtökurnar misjafnar og sumir hálfskömmuðu konuna fyrir að taka þátt í slíku brjálæði, en framkvæmdin þótti jú gríðarlega dýr og metnaðarfull á þeim tíma.
Nú er öldin önnur og Líf Styrktarfélag fær ýmsa styrki að frumkvæði fyrirtækja og einstaklinga sem vilja láta gott af sér leiða, m.a. í tengslum við áheit í tengslum við árlegt Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka. Hér má t.d. sjá þá hlaupara sem hlaupa fyrir Líf styrktarfélag í ár: https://www.rmi.is/hlaupastyrkur/godgerdamal/406-lif-styrktarfelag – Gaman er að segja frá því að á meðal hlauparanna leynist meðal annars Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, barnabarn Kristrúnar Malmquist 😊
Á meðfylgjandi myndum má sjá Kristrúnu fljótlega eftir að hún hóf störf 1957, mynd sem tekin var í kveðjuhófi Kristrúnar árið 2001 og svo mynd sem tekin var nú fyrr í sumar þegar styrkurinn var formlega afhentur. Á nýjustu myndinni eru Kristrún Malmquist, Guðlaug Erla Vilhjálmsdóttir núverandi yfirljósmóðir á Landspítalanum, auk fjölskyldumeðlima Kristrúnar – María Elíasdóttir, Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, Sonja Garðarsdóttir og Georg Lúðvíksson.
Líf stykarfélag þakkar kærlega fyrir þennan fallega og veglega styrk og þökkum Kristrúnu Malmquist sérstaklega fyrir hennar framlag í þágu kvennadeildarinnar.