Nýr ómhermir fyrir  fæðingarvakt kvennadeildar Landspítala

Nýr ómhermir fyrir fæðingarvakt kvennadeildar Landspítala

Vera Vidisdottir
Líf styrktarfélag styrkti fæðingarvakt kvennadeildar Landspítala á dögunum um nýjan spennandi ómhermi til að hefja kennslu á notkun ómtækja í fæðingu. Tækið sem um ræðir kostar tæpar 2. millj. kr.

Síðastliðin ár hefur orðið mikil aukning á notkun ómtækja í fæðingum, fyrst um sinn hjá læknum en nú síðustu ár einnig hjá ljósmæðrum. Með notkun á ómtækjum í fæðingum við framgangsmat er hægt að draga úr hefðbundnum innri þreifingum en þá er ómað um kvið og við spöng. Með ómskoðunum er hægt að fylgjast með útvíkkun legháls, staðsetningu og stöðu barns í fæðingunni. Úr mælingunum sem eru gerðar við ómskoðunina er hægt að áætla hversu langt eftir er af fæðingunni í stað þess að gera innri þreifingu eins og hefðbundið er.

Kostir þess að nota ómskoðun í stað innri þreifinga eru margþættir, m.a. þykir þessi skoðun henta sérstaklega vel fyrir konur sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi, konur í áhættu á fyrirburafæðingu og konur í langdregni fæðingu. Einnig er það gríðarlegur kostur að geta lágmarkað áreiti, óþægindi og sýkingarhættu fyrir konur.
Elsa Ruth Gylfadóttir og Hilda Friðfinnsdóttir, ljósmæður á Fæðingarvakt Landspítalans eru í forsvari fyrir þetta spennandi verkefni og vinna að aukinni þróun á notkun ómtækjum hjá ljósmæðrum á Landspítalanum. Ljósmæður sem sinna fæðingum hafa ekki hlotið sérstaka kennslu í ómskoðunum líkt og ljósmæður sem sinna ómskoðunum á meðgöngu og er það ósk þeirra að ná að þjálfa allar ljósmæður sem starfa í fæðingarþjónustu Landspítalans í notun á þessari nýju og áhugaverðu tækni. Einnig er áframhaldandi kennsla lækna og sérstaklega nýrra lækna á tæknina.

Tækið sem um ræðir er hermisónartækið LaborSim, sem er framleitt af ítalska fyrirtækinu Amolab. Með þessum hermi er hægt að kenna grundvallartækni áður en ljósmæður og læknar nýta sér aðferðina í virkum fæðingum. Tækið samanstendur af líkani af ytri kvenkynfærum, sónarhaus og tölvuforriti. Þannig er hægt að nota ómhausinn til að æfa sónarskoðanir við spöng líkansins líkt og gert er með ómtæki í fæðingu við mat á framgangi. Þetta tengist svo í tölvu sem birtir sónarmyndina og hægt er að gera mælingar þar. Tölvuforritið hefur að geyma mörg tilfelli og þannig hægt ná þjálfun í að meta mismunandi stöður og stellingar á kolli barns í grind, sem segir til um hversu langt konan er komin í fæðingunni. Tækið býður þannig upp á góða þjálfun í að nýta ómtæki sem farsælast.

Takk kæru Lífsfélagar fyrir ykkar framlag að gera okkur hjá Líf styrktarfélagi kleift að vera sá bakhjarl kvennadeildar sem við erum stolt af því að vera. 🩷🧡
Aftur á bloggið