Evustofa í minningu Evu Berglindar Tulinius

Evustofa í minningu Evu Berglindar Tulinius

Vera Víðisdóttir
Þann 9. febrúar 2024 var Evustofa formlega opnuð í viðurvist fjölskyldu og vina Evu
Berglindar, en þann dag hefði hún orðið 34 ára gömul.

Eva Berglind Tulinius starfaði sem ljósmóðir á Landspítalanum og að sögn vinkvenna hennar var hún með dásamlegt ljósmæðrahjarta, hlý og natin og sinnti starfi sínu af einstakri list. Það sást langar leiðir að hún var fædd í starf ljósmóður.

Eva var aðeins þrítug þegar hún greindist með þriðja stigs krabbamein, þá komin 16
vikur á leið með sitt annað barn en fyrir áttu þau dreng á fjórða aldursári. Eftir hetjulega baráttu við meinið lést Eva Berglind þann 13. ágúst 2022, aðeins 32 ára gömul.

Ella Björg og Arndís, vinkonur Evu, hrintu af stað söfnun í góðu samráði við fjölskyldu Evu og gekk söfnunin vonum framar. Alls safnaðist rúmlega 1 milljón kr.
Fyrir söfnunarféð var stofu 1 á Meðgöngu- og sængurlegudeild á Landspítalanum breytt í “Evustofu”. Stofan var gerð í hennar anda, máluð í hennar uppáhaldslit og myndir eftir Evu sjálfa prýða veggi stofunnar. Einnig var keypt ný göngugrind sem hafði vantað fyrir skjólstæðinga deildarinnar. Það sem eftir stendur af söfnunarfénu rennur upp í kaup á nýju ómtæki fyrir Meðgöngu- og sængurlegudeildina.

Með Evustofu lifir minning um einstaka vinkonu og samstarfskonu.
Aftur á bloggið