Sirrý og Snjódrífurnar söfnuðu sex milljónum fyrir Líf og Kraft
Snjódrífurnar og Sirrý Ágústsdóttir afhentu fulltrúum styrktarfélaganna Lífs og Krafts
afrakstur söfnunar Lífskrafts, samtals 6 milljónir króna sem skiptast jafnt á félögin, á
Kjarvalsstöðum 16. september 2021. Í byrjun sumars 2021 gengu Snjódrífurnar 165 km leið yfir Vatnajökul og söfnuðu áheitum fyrir félögin Kraft, félag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein, og Líf, styrktarfélag kvennadeildar Landspítala. Við styrkjunum tóku þær Ingrid Kuhlman formaður Lífs og Elín Sandra Skúladóttir formaður Krafts. Sirrý Ágústsdóttir upphafskona átaksins greindist með leghálskrabbamein árið 2010 og aftur árið 2015. Í síðara skiptið var ljóst að krabbameinið var krónískt og töldu læknar að hún ætti eitt til þrjú ár eftir ólifað. Sirrý ákvað að fagna þessum tímamótum með því að ganga yfir Vatnajökul ásamt útivistarvinkonum sínum og á sama tíma að hvetja konur um land allt til að ganga og taka þátt í Lífskraftsgöngu í sinni heimabyggð. Markmiðið göngunnar var jafnframt að minna á mikilvægi útivistar og sjálfseflingar í endurhæfingu eftir veikindi.
Auk Sirrýjar skipa Snjódrífur leiðangurstjórarnir Vilborg Arna Gissurardóttir pól- og
Everestfari og Brynhildur Ólafsdóttir Landvættaþjálfari og fjallaleiðsögumaður; Anna
Sigríður Arnardóttir, Birna Bragadóttir, Heiða (Nikita) Birgisdóttir, Hólmfríður Vala
Svavarsdóttir, Hulda Hjálmarsdóttir, Karen Kjartansdóttir, Soffía S. Sigurgeirsdóttir,
Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé. Bakhjarlar Snjódrífanna í Vatnajökulsgöngunni voru
66°Norður, Arctic Fish og Landsvirkjun.