Styrktarhandboltaleikur Valskvenna að frumkvæði Kristínar Guðmundsdóttir
Vera Víðisdóttir
Úrslitakeppnin í meistaraflokki kvenna í handknattleik vorið 2013 hófst á styrktarleik fyrir Líf styrktarfélag en Kristín Guðmundsdóttir leikmaður Vals átti frumkvæði að leiknum. Markmið Kristínar með söfnuninni var að bæta aðbúnað kvenna sem missa börn sín á meðgöngu eða í fæðingu. Kristín varð sjálf fyrir þeirri erfiðu lífsreynslu árið 2011 að tvíburadrengir sem hún gekk með komu í heiminn alltof snemma eða eftir aðeins 19 vikna meðgöngu. Drengirnir áttu sér aldrei lífsvon. Í gegnum þessar raunir sínar áttaði hún sig á því hversu mikilvægu hlutverki Líf sinnir og hversu erfitt er fyrir konur sem missa börn að vera innan um fæðandi konur og börn þeirra á meðan þær eru að jafna sig eftir missinn.
Árið 2014 innréttaði Líf sérherbergi vegna andvana fæðinga fyrir fjármuni sem söfnuðust í leiknum eftir ábendingar Kristínar um það sem betur mætti fara í þjónustu við konur í þessum viðkvæmu aðstæðum. Herbergið hefur hlotið nafnið Kristínarstofa henni til heiðurs.