Vilborg Arna á Suðurpólinn
Vilborg Arna Gissurardóttir fjallagarpur gekk ein síns liðs á Suðurpólinn í desember 2012. Hún var fyrsti Íslendingurinn til að fara þessa leið ein og vann þar með einstakt afrek. Vilborg gekk 1.140 kílómetra á 60 dögum með gildin sín, jákvæðni, áræðni og hugrekki, að leiðarljósi. Þannig tókst henni að sigrast á ótrúlegustu aðstæðum og gera tíu ára draum sinn að veruleika.
Vilborg ætlaði ekki aðeins að verða fyrsti Íslendingurinn í sögunni til að ganga á Suðurpólinn ein síns liðs heldur vildi hún einnig láta gott af sér leiða og leggja sitt af mörkum til að efla hag þeirra kvenna sem þurfa að leita þjónustu Kvennadeildar Landspítalans. Þess vegna ýtti hún úr vör söfnunarátakinu Lífsspor sem stóð yfir á meðan á ferð hennar á Suðurpólinn stóð.
Á leið sinni á Suðurpólinn safnaði Vilborg 35 milljónum fyrir Líf styrktarfélag. Söfnunarféð rann óskipt í endurgerð aðstandendaherbergis og setustofu sjúklinga sem fengið hafa nafnið Vilborgarstofa og Pólstjarnan.